16.3.2010 | 09:19
L listi Opins Lýðræðis í VR
L listi Opins Lýðræðis í VR
Af hverju bjóðum við fram L lista Opins Lýðræðis í VR ?
Ágætu félagar í VR
Það er löngu orðið ljóst að engar breytingar verða í félaginu okkar á næstu árum ef þessi meirihluti stjórnar fær að stýra félaginu. Því tókum við okkur saman nokkrir félagar í VR og ákváðum að reyna að endurtaka leikinn frá í fyrra og bjóða fram til að freista þess að koma á þeim breytingum sem ætlunin var að byrja á í fyrra. Megin markið okkar á L listanum eru:
- AÐ opna félagið okkar og fá allt upp á borðið um hvernig hátt í fimm hundruð milljónum er varið í rekstri VR. Gera félagið lýðræðislegra með því að einfalda kosningakerfið, fá meiri og betri upplýsingar og láta félagið vinna fyrir okkur.
- AÐ fá upplýsingar um ótrúlega sóun á peningunum okkar í Lífeyrissjóðnum. Hverjum var lánað, af hverju og hvaða veð voru á bak við lánin? Hver eru tengsl stjórnarmanna og lántakenda, af hverju tapaði sjóðurinn tugum milljarða?
Í framboði fyrir L listann eru; Kristín G. Ingimundardóttir bókari hjá Betra bak, Salvör Lilja Brandsdóttir ráðstefnudeild Grand Hótel, Björn S. Lárusson atvinnuleitandi og Björg Dan Róbertsdóttir neytendavörusviði Icepharma.
Framboð okkar er á okkar forsendum og tengist ekki neinum samtökum eða hagsmunum í samfélaginu. Við viljum eingöngu vinna af heilindum að hagsmunum félagsmanna og gera VR verkalýðsfélagi í stað hagsmunafélags fjármagnseigenda, sjóðagæslufélagi og valdastofnun.
Nýr formaður og meirihluti stjórnar hefur gjörsamlega brugðist okkur. Þegar þeir komust í þægilega stóla könnuðust þeir ekkert við loforðin í kosningunum í fyrra og lokuðu bloggum sínum. Meirihluti stjórnar er í raun tvær fylkingar gamalla og nýrra stjórnarmanna sem takast á um völd og áhrif en þjóna okkur ekki. Á milli þeirra er formaðurinn sem hefur engu komið í verk af því sem hann lofaði en reynir að ganga í augun á meirihlutanum. Formaður og meirihluti stjórnar hefur sýnt af sér ótrúlegan hroka í garð okkar almennu félagsmanna og hundsað allt sem okkur kemur að gagni. Þau vilja ekki hreyfa við verðtryggingunni eða myntkörfulánum sem eru að sliga mörg okkar. Þau ríghalda í svokallaðan stöðuleikasáttmála" sem hefur ekki skilað okkur neinu. Þau neita okkur um sjálfsagðar upplýsingar um hvað varð um peningana okkar sem töpuðust í Lífeyrissjóði verslunarmanna. Nú fara þau eins og stormsveipur um vinnustaði og tala um okkur sem ógn við sig en ekki sem lýðræðislegt mótframboð gegn framboði stjórnar og trúnaðarráðs.
Það er einlægur ásetningur okkar að vinna af heilindum fyrir ykkur og gleyma ekki því sem við ætlum okkur. Takist okkur að vinna kosningarnar er kominn nýr meirihluti í stjórn VR sem er þess megnugur að vinna fyrir okkur öll. Við styðjum einnig framboð Halls Eiríkssonar aðstoðarverslunarstjóra í Rúmfatalagernum í einstaklingskjöri.
Kjósið L - lista Opins Lýðræðis í VR - Stuðningsmenn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.