Fengu ekki að fara af A-lista yfir á L-lista,

Nokkrir félagsmenn VR vildu færa sig af uppstillingalista stjórnar áður enn framboðsfrestur rann út. Þeim var neitað og lokaðir fastir á svokölluðum A-lista, einn þeirra vildi meðal annars bjóða sig fram til stjórnar en honum var hafnað. Hér er dæmi af bréfi sem sent var á Kjörstjórn.

Það eru til e-mail frá sex félagsmönnum sem vildu færa sig af A-lista.

 

From: Alanw@steypustodin.is [mailto:Alanw@steypustodin.is]
Sent: 24. febrúar 2010 08:23
To: Teitur Lárusson
Cc: halldor@asi.is; Auður Búadóttir; Steinunn Böðvarsdóttir
Subject: RE: Listi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna

 

Kjörstjórn VR vegna kosninga til stjórnar og trúnaðarmannaráðs 2010.

 

Reykjavík 24. febrúar 2010

 

Málefni:  Mótmæli við úrskurði dags. 23. febrúar 2010

 

Ég undirritaður, ítreka hér með tilkynningu mína frá því 22. febrúar sl., þar sem ég segi mig af framboðslista upp stillingarnefndar trúnaðarráðs VR, en ég fékk fyrr í dag erindi frá kjörstjórn VR vegna áður sendar yfirlýsingar.  Þar kemur fram að mér sé óheimilt að segja mig af listanum, þar sem hann hafi legið endanlega fyrir og verið afgreiddur á Nýársfundi VR hinn 28. janúar sl.  Tekið er fram að lög VR, LÍV eða ASÍ fjalli ekki um það mál sem hér er til úrlausnar, þ.e. þegar frambjóðandi á lista trúnaðarráðs og trúnaðarmanna vill segja sig af listanum, eftir að hann liggur endanlega fyrir og er afgreiddur.  Þá er vísað til 35. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis og einnig samhljóða greinar í 22. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna.

 

Niðurstöðu úrskurðarins mótmæli ég harðlega.  Í framangreindum lagagreinum sem úrskurður kjörstjórnar VR byggist á, er talað um að;

 

"frambjóðandi geti afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila inn framboðum rennur út".

 

Framboðsfrestur vegna kosninganna rennur ekki út fyrr en á hádegi á morgun, hinn 24. febrúar, eins og þegar hefur verið auglýst á heimasíðu félagsins.  Úrsögn mín er því fram sett tveimur dögum fyrir þann tíma.  Hafa ber í huga að listi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna er eins og hver annar framboðslisti til kosninga innan VR og á ekki að njóta neinnar sérstöðu umfram önnur framboð, komi til kosninga.  Samþykkt Nýársfundar VR hinn 28. janúar sl. verður að skoða í því ljósi, að þar hafi tiltekið stjórnmálaafl samþykkt fyrir sitt leiti hverjir yrðu á lista þeirra í tilteknum kosningum.  Framboðsfrestur er eftir sem áður skýrt tiltekinn á hádegi 24. febrúar eins og áður sagði.  Ég hef ákveðið að taka sæti á öðrum lista og tel mér það fullkomlega heimilt í ljósi ofanritaðs, enda lá ekki fyrir fyrr en á Nýársfundinum að til endanlegra kosninga kæmi.  Ástæða þess er sú spillingarumræða í kringum félagið og leyndarhyggja stjórnarinnar varðandi meðferð fjármuna félagsins.

 

Kosningakerfi VR er flókið og illskiljanlegt fyrir hinn venjulega félagsmann.  Ég vil og ætla að taka þátt í trúnaðarstörfum fyrir mitt stéttarfélag.  Eins og kosningakerfið er byggt upp, þá er eina leiðin til að eiga tryggan möguleika á því að hafa áhrif á félagsstarfið, að taka sæti á lista trúnaðarráðsins fyrir Nýársfundinn, enda algerlega óljóst fyrr en á þeim fundi hvort til kosninga kemur.  Verði sú niðurstaða á fundinum sjálfum, er auglýstur framboðsfrestur í framhaldi af þeirri niðurstöðu.  Hann er einn og sá sami fyrir kosningarnar, ekki getur verið um marga framboðsfresti að ræða við einar og sömu kosningarnar.  Ég tel því augljóst að mér sé fullkomlega heimilt að taka mína eigin ákvörðun um það á framboðsfrestinum, hvaða framboð ég kýs að styðja með þátttöku minni.  Kjörstjórn VR er í órétti í úrskurði sínum og beitir mig ólögmætri þvingun til að vera á lista sem mér hugnast ekki, jafnvel þó ég hafi tilkynnt innan framboðsfrests að ég vilji segja mig af listanum.

 

Ef kjörstjórn VR, sem samansett er af tveimur starfsmönnum félagsins og aðstoðar framkvæmdastjóra ASÍ, hyggst á einhvern hátt meina mér að bjóða mig fram á þeim lista sem mér hugnast best við framangreindar kosningar, lít ég á það sem alvarlega aðför að lýðræðislegum rétti mínum sem félaga í VR.  Ef afstöðu kjörstjórnar verður ekki breytt, mun ég kæra þá ákvörðun áfram.  Óskast upplýst hvert hægt sé að kæra slíka niðurstöðu, en í framangreindum úrskurði er ekki að finna leiðbeiningar um kæruleiðir í samræmi við ákvæði leiðbeiningar reglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Virðingarfyllst,


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband