28.3.2011 | 15:59
Lánaleiðrétting er nauðsynleg kjarabót sem ekki má gleymast.
Samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna, eru um 15.000 heimili með skuldir umfram 110% af fasteignamati og fer ört vaxandi. Hjá stórum hluta þessa hóps duga ráðstöfunartekjur ekki fyrir áætluðum framfærslukostnaði og því síður upp í greiðslur af lánum. Nauðsynlegt er að bregðast við þeim forsendubresti sem hefur átt sér stað í landinu og koma til móts við þá sem ekki offjárfestu en standa uppi með skuldir sem étið hefur upp allan eignarhluta í fasteignum þeirra. Skuldir vega ekki minna en tekjur ef við ætlum að skoða afkomu fólks. Kjarabaráttan hefur alltaf snúist um tekjuhliðina en skuldahliðin er alveg jafn mikilvæg. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt það og sannað að hún hefur verið gjörsamlega ófær hingað til að bæta kjör þeirra sem verst eru staddir og hefur ríkið alltaf þurft að grípa inn í til að jafna dæmið með t.d. hátekjuskatt eða auka barnabætur. Vaxtalækkun og/eða lánaleiðrétting er fín kjarabót og snertir marga launþega en sem dæmi má nefna myndi það samsvara ca. 16.000 kr. launahækkun ef greiðslubyrðin lækkaði um 10.000 kr. Verkalýðsfélögin verða að hafa stefnu sem snúa jafnt að lánakjörum sem og launakjörum. Það er ólíðandi að búa á landi þar sem launahækkun er étin upp á örfáum mánuðum vegna eignartaps í fasteignum okkar. Náttúruhamfarir eiga ekki að hafa áhrif á skuldastöðu mína eða þína.
Þessa kerfisvillu þekki ég af eigin raun og hef virkilega þurft á virkum málsvara til að hjálpa mér við að berjast fyrir breytingum. Samtök lánþega hafa komið mjög sterkt inn en betur má ef duga skal. Ég spyr því hvers vegna hefur verklýðsfélagið mitt VR ekki látið í sér heyra? Þeir eiga jú að gæta þess að félagsmenn verði ekki fyrir kjaraskerðingu. Hvar er ASÍ? Hvar eru öll þessi stóru öfl í landinu sem svo sannarlega geta sagt eitthvað um málið en virðast hafa týnt röddinni við það að telja félagsgjöldin sem við borgum þeim um hver mánaðarmót. Ein vinkona mín sem ætti að vera fyrirmynd margra þegar það kemur að rekstri heimilisins hefur nú tapað öllum eignarhluta sínum í íbúðinni en fær bara bágt fyrir með t.d. neitun um greiðslukort þar sem eignarhlutur hennar er enginn í fasteigninni. Hún er samt skilvísasta manneskja sem ég þekki og ættu lánastofnanir að keppast um að fá hana sem sinn viðskiptavin. Er þetta hið nýja Ísland sem við erum að byggja upp?
Ég sem samfélagsþegn í þessu landi geri kröfur um að kjarabaráttan muni snúast jafnt um lánakjör sem og launakjör en það ætti að vera markmið allra verkalýðsfélaga.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir frambjóðandi til formanns VR
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.