29.3.2011 | 13:20
Fjölskyldan þarf rými í yfirstandandi kjarasamningum
Eftir því sem börn okkar eldast þá minnkar þörf okkar á þessum samningsbundna rétti. Hver skyldi ástæðan vera fyrir því, að verkalýðshreyfingin hafi ekki samið þannig að réttur okkur hverfi ekki, heldur hafi launafólk möguleika á að aðstoða þá sem okkur standa næst, t.d. maka eða foreldra?
Það að launafólk sem ekki er með börn á framfæri þurfi að taka sér launalaust leyfi til að sinna foreldrum eða maka í veikindum þeirra, er samfélagslega óhagkvæmt og yfirstandandi kjarasamningar verða að taka á málefnum fjölskyldunnar í heild. Það er mín krafa!
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir í framboði til formanns VR
www.facebook.com/formadurvr
28.3.2011 | 15:59
Lánaleiðrétting er nauðsynleg kjarabót sem ekki má gleymast.
Samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna, eru um 15.000 heimili með skuldir umfram 110% af fasteignamati og fer ört vaxandi. Hjá stórum hluta þessa hóps duga ráðstöfunartekjur ekki fyrir áætluðum framfærslukostnaði og því síður upp í greiðslur af lánum. Nauðsynlegt er að bregðast við þeim forsendubresti sem hefur átt sér stað í landinu og koma til móts við þá sem ekki offjárfestu en standa uppi með skuldir sem étið hefur upp allan eignarhluta í fasteignum þeirra. Skuldir vega ekki minna en tekjur ef við ætlum að skoða afkomu fólks. Kjarabaráttan hefur alltaf snúist um tekjuhliðina en skuldahliðin er alveg jafn mikilvæg. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt það og sannað að hún hefur verið gjörsamlega ófær hingað til að bæta kjör þeirra sem verst eru staddir og hefur ríkið alltaf þurft að grípa inn í til að jafna dæmið með t.d. hátekjuskatt eða auka barnabætur. Vaxtalækkun og/eða lánaleiðrétting er fín kjarabót og snertir marga launþega en sem dæmi má nefna myndi það samsvara ca. 16.000 kr. launahækkun ef greiðslubyrðin lækkaði um 10.000 kr. Verkalýðsfélögin verða að hafa stefnu sem snúa jafnt að lánakjörum sem og launakjörum. Það er ólíðandi að búa á landi þar sem launahækkun er étin upp á örfáum mánuðum vegna eignartaps í fasteignum okkar. Náttúruhamfarir eiga ekki að hafa áhrif á skuldastöðu mína eða þína.
Þessa kerfisvillu þekki ég af eigin raun og hef virkilega þurft á virkum málsvara til að hjálpa mér við að berjast fyrir breytingum. Samtök lánþega hafa komið mjög sterkt inn en betur má ef duga skal. Ég spyr því hvers vegna hefur verklýðsfélagið mitt VR ekki látið í sér heyra? Þeir eiga jú að gæta þess að félagsmenn verði ekki fyrir kjaraskerðingu. Hvar er ASÍ? Hvar eru öll þessi stóru öfl í landinu sem svo sannarlega geta sagt eitthvað um málið en virðast hafa týnt röddinni við það að telja félagsgjöldin sem við borgum þeim um hver mánaðarmót. Ein vinkona mín sem ætti að vera fyrirmynd margra þegar það kemur að rekstri heimilisins hefur nú tapað öllum eignarhluta sínum í íbúðinni en fær bara bágt fyrir með t.d. neitun um greiðslukort þar sem eignarhlutur hennar er enginn í fasteigninni. Hún er samt skilvísasta manneskja sem ég þekki og ættu lánastofnanir að keppast um að fá hana sem sinn viðskiptavin. Er þetta hið nýja Ísland sem við erum að byggja upp?
Ég sem samfélagsþegn í þessu landi geri kröfur um að kjarabaráttan muni snúast jafnt um lánakjör sem og launakjör en það ætti að vera markmið allra verkalýðsfélaga.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir frambjóðandi til formanns VR
28.3.2011 | 12:35
Ábyrgð og hófsemi
Hvaða ábyrgð, hófsemi og aðhald hefur verkalýðshreyfingin sýnt?
Við höfum séð ábyrgar skattahækkanir sem engu hafa skilað nema hækkun á neysluvísitölu. Við höfum séð hófsamar og ábyrgar innistæðutryggingar án takmarkana þar sem stór hluti þeirra upphæða sem tryggður var, eru sömu skuldirnar og almenningur verður skattpíndur næstu áratugi til að greiða.
Við höfum séð ábyrgð og hófsemi í gjaldskrárhækkunum orkuveitunnar og niðurskurði hjá leikskólum og grunnskólum.
Við þekkjum ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar í að mótmæla því að ríkið innheimti skattstofn sinn í séreignasparnaði til að hlífa heimilum landsins við frekari álögum.
Með ábyrgum og hófsömum hætti stakk Verkalýðshreyfingin hausnum á bólakaf í sandinn á meðan almenningur leitaði réttar síns vegna stökkbreyttra húsnæðis og bílalána og tók svo á endanum ábyrga afstöðu með fjármálafyrirtækjunum.
Nú ætlar verkalýðshreyfingin að bjóða launafólki í kökuboð þar sem sýnt verður fram á hversu lítið sé til skiptanna.
Hvar var verkalýðshreyfingin þegar fjármagnseigendur voru að skera sínar sneiðar af sömu köku sem ekkert er eftir af? Hvar var verkalýðshreyfingin þegar milljarðahundruðum var eytt í að kaup verðlausa skuldabréfa út úr peningamarkaðssjóðum sem ekki voru ríkistryggðir en í eigu og stjórnað af útvöldum. Hvar var verkalýðshreyfingin þegar kökusneiðunum var sólundað í sama svartholið og kom okkur á hliðina?
24.2.2011 | 08:30
VR stendur ekki fyrir ValdaRán
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2011 | 10:16
Framboð til formanns VR
Vegna fjölda áskorana hef ég, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til formanns VR.
Það er kominn tími til að kröftug kona sem er óhrædd við að berjast opinberlega að kjaramálum félagsmanna, hvort sem það er í formi launa eða leiðréttingu lána, leiði VR á þessum erfiðu tímum.
Ég hef haft það sem forgangsmál í minni stjórnartíð hjá VR að efla gegnsæi, auka heiðarleika og hvetja verkalýðsforystuna til að taka afstöðu með félagsmönnum á sýnilegan hátt. Þessari vinnu vil ég halda áfram og gefa VR rödd sem talar máli félagasmanna óháð því hvaða stjórnmálaflokkur situr við völd. Verkalýðsfélögin eiga að vera óháð allri pólitík en þannig er hægt að hámarka ávinning félagsmanna.
Hlakka ég til að taka þátt í þessum kosningum sem eru framkvæmdar í fyrsta skipti með nýsettum lögum er marka tímamót í sögu félagsins. Félagsmönnum er nú gefinn kostur á að velja sér fólk til trúnaðarstarfa með lýðræðislegum hætti en það verk var fyrsta skrefið í að opna félagið og auka þar með lýðræðið.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir
Meistaranemi í alþjóðaviðskiptum, stjórnarmaður og félagsmaður VR.
11.1.2011 | 14:31
Framhaldsaðalfundur VR
Ágætu félagsmenn VR,
Í kvöld verður haldinn framhaldsaðalfundur hjá VR þar sem á að kjósa um breytingu á núverandi kosningalögum. Stjórnin hefur samþykkt að leggja fram tillögu sem ég get ekki sætt mig við. Ég hef barist fyrir því að hinn almenni félagsmaður fái alltaf að kjósa sér stjórn og formann. Mun ég því styðja við breytingatillögu við allri 20 gr. félagsins sem borin verður upp en hún er eftirfarandi : http://bellaninja.blog.is/users/9a/bellaninja/files/20_gr.pdf
Þessa leið tel ég vera besta fyrir félagsmenn VR þar sem lýðræðið fær að njóta síns með beinum kosningarétti allra ár hvert.
Þó svo að fáir notuðu kosningarétt sinn í seinustu kosningum hjá VR skulum við ekki gleyma því að hafa val er frelsi og á að vera réttur allra sem borga félagsgjöld.
kv,
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, stjórnarmaður VR
5.1.2011 | 09:43
Rangur misskilningur
Mikið hefur verið skrifað í fjölmiðlum um málefni stjórnarmanna hjá VR á undanförnum dögum. Það hefur haft það í för með sér að margir félagsmenn klóra sig nú í hausnum og skilja ekki upp né niður í því hvað er í gangi og finnst mér það ekki skrýtið.
Einn helsti misskilningurinn er sá að vegið hefur verið að rétt kjörnum formanni VR. Þetta er alls ekki málið því að formaðurinn, Kristinn Örn heldur svo sannarlega öllu því embætti sem hann var kosinn til. Það eina sem tekið var af honum var umsjón með daglegum rekstri skrifstofu, en það er hlutverk framkvæmdastjóra. Þegar formaður fær kosningu er hann ekki kosinn sem framkvæmdastjóri, það er hlutverk stjórnar að ráða í þá stöðu. Kristinn Örn fékk umboð stjórnar til að sinna þessu starfi með formannsembættinu á sínum tíma, en á síðasta stjórnarfundi var samþykkt að taka það umboð til baka.
Vilji félagsmanna að hafa Kristinn Örn sem formann stendur enn og er ekki í höndum stjórnamanna að breyta því.
Ég vil svo minna á framhaldsaðalfund félagsins sem haldinn verður 11.01.2011. á Hilton Nordica kl. 19.30. Þar verða t.d. tvær tillögur er snúa að kosningarétti félagsmanna lagðar fram og önnur mál rædd.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, stjórnarmaður VR
30.12.2010 | 14:25
VR félag félagsmanna!
Kæru VR félagar,
Á fundi stjórnar VR í gær lagði ég fram tillögu mína um að öll stjórnin segi af sér og boðað verði til kosninga. Þar sem þessi tillaga er sett fram undir dagskáliðnum önnur mál má ekki taka afstöðu til hennar fyrr en á næsta fundi.
Á ég ekki von á að hún fái hljómgrunn þar sem Skuggarnir gera allt til að verja félagið sitt og stjórnarsætin sín.
Það er mín einlæga ósk að vinnufriður komist á innan VR. Formaðurinn, Kristinn Örn hefur ekki hjálpað til í þeim efnum með einræðistilburði sem hefur bara gert stjórnina enn klofnari.
Ein fylkingin hélt leynifund í húsnæði N1 í vikunni með hluta af trúnaðarráði til að kynna fyrir þeim formannsefnið þeirra hann Stefán Einar siðfræðing en kaus svo á móti vantrausttillögu á sitjandi formann. Maður spyr sig hvernig er hægt að starfa með svona fólki? Er ekki heiðarlegt að allir víki?
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, stjórnarmaður VR
27.12.2010 | 12:39
Stjórn VR á að víkja
Nú er svo komið að allar vonir um breytt ástand innan stjórnar VR eru brostnar og það leynimakk sem einkennt hefur störf hóps innan stjórnar ætlar engan enda að taka. Það hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að boðað skuli til kosninga svo fljótt sem auðið er. Heiðarlegt er að öll stjórnin og formaður leggi störf sín á borðið og félagsmenn velji þá leið sem farin verði í enduruppbyggingu félagsins. Mun ég því leggja fram tillögu þess eðlis á stjórnarfundi sem haldinn verður 29 desember næstkomandi.
Þar sem ég er á móti öllu leynimakki mun ég gera grein fyrir niðurstöðunni strax eftir fundinn, en ég trúi því að þeir sem hafa hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi muni styðja þessa tillögu mína.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir
Stjórnarmaður VR
23.3.2010 | 11:24
Fengu ekki að fara af A-lista yfir á L-lista,
Nokkrir félagsmenn VR vildu færa sig af uppstillingalista stjórnar áður enn framboðsfrestur rann út. Þeim var neitað og lokaðir fastir á svokölluðum A-lista, einn þeirra vildi meðal annars bjóða sig fram til stjórnar en honum var hafnað. Hér er dæmi af bréfi sem sent var á Kjörstjórn.
Það eru til e-mail frá sex félagsmönnum sem vildu færa sig af A-lista.
From: Alanw@steypustodin.is [mailto:Alanw@steypustodin.is]
Sent: 24. febrúar 2010 08:23
To: Teitur Lárusson
Cc: halldor@asi.is; Auður Búadóttir; Steinunn Böðvarsdóttir
Subject: RE: Listi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna
Kjörstjórn VR vegna kosninga til stjórnar og trúnaðarmannaráðs 2010.
Reykjavík 24. febrúar 2010
Málefni: Mótmæli við úrskurði dags. 23. febrúar 2010
Ég undirritaður, ítreka hér með tilkynningu mína frá því 22. febrúar sl., þar sem ég segi mig af framboðslista upp stillingarnefndar trúnaðarráðs VR, en ég fékk fyrr í dag erindi frá kjörstjórn VR vegna áður sendar yfirlýsingar. Þar kemur fram að mér sé óheimilt að segja mig af listanum, þar sem hann hafi legið endanlega fyrir og verið afgreiddur á Nýársfundi VR hinn 28. janúar sl. Tekið er fram að lög VR, LÍV eða ASÍ fjalli ekki um það mál sem hér er til úrlausnar, þ.e. þegar frambjóðandi á lista trúnaðarráðs og trúnaðarmanna vill segja sig af listanum, eftir að hann liggur endanlega fyrir og er afgreiddur. Þá er vísað til 35. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis og einnig samhljóða greinar í 22. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna.
Niðurstöðu úrskurðarins mótmæli ég harðlega. Í framangreindum lagagreinum sem úrskurður kjörstjórnar VR byggist á, er talað um að;
"frambjóðandi geti afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila inn framboðum rennur út".
Framboðsfrestur vegna kosninganna rennur ekki út fyrr en á hádegi á morgun, hinn 24. febrúar, eins og þegar hefur verið auglýst á heimasíðu félagsins. Úrsögn mín er því fram sett tveimur dögum fyrir þann tíma. Hafa ber í huga að listi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna er eins og hver annar framboðslisti til kosninga innan VR og á ekki að njóta neinnar sérstöðu umfram önnur framboð, komi til kosninga. Samþykkt Nýársfundar VR hinn 28. janúar sl. verður að skoða í því ljósi, að þar hafi tiltekið stjórnmálaafl samþykkt fyrir sitt leiti hverjir yrðu á lista þeirra í tilteknum kosningum. Framboðsfrestur er eftir sem áður skýrt tiltekinn á hádegi 24. febrúar eins og áður sagði. Ég hef ákveðið að taka sæti á öðrum lista og tel mér það fullkomlega heimilt í ljósi ofanritaðs, enda lá ekki fyrir fyrr en á Nýársfundinum að til endanlegra kosninga kæmi. Ástæða þess er sú spillingarumræða í kringum félagið og leyndarhyggja stjórnarinnar varðandi meðferð fjármuna félagsins.
Kosningakerfi VR er flókið og illskiljanlegt fyrir hinn venjulega félagsmann. Ég vil og ætla að taka þátt í trúnaðarstörfum fyrir mitt stéttarfélag. Eins og kosningakerfið er byggt upp, þá er eina leiðin til að eiga tryggan möguleika á því að hafa áhrif á félagsstarfið, að taka sæti á lista trúnaðarráðsins fyrir Nýársfundinn, enda algerlega óljóst fyrr en á þeim fundi hvort til kosninga kemur. Verði sú niðurstaða á fundinum sjálfum, er auglýstur framboðsfrestur í framhaldi af þeirri niðurstöðu. Hann er einn og sá sami fyrir kosningarnar, ekki getur verið um marga framboðsfresti að ræða við einar og sömu kosningarnar. Ég tel því augljóst að mér sé fullkomlega heimilt að taka mína eigin ákvörðun um það á framboðsfrestinum, hvaða framboð ég kýs að styðja með þátttöku minni. Kjörstjórn VR er í órétti í úrskurði sínum og beitir mig ólögmætri þvingun til að vera á lista sem mér hugnast ekki, jafnvel þó ég hafi tilkynnt innan framboðsfrests að ég vilji segja mig af listanum.
Ef kjörstjórn VR, sem samansett er af tveimur starfsmönnum félagsins og aðstoðar framkvæmdastjóra ASÍ, hyggst á einhvern hátt meina mér að bjóða mig fram á þeim lista sem mér hugnast best við framangreindar kosningar, lít ég á það sem alvarlega aðför að lýðræðislegum rétti mínum sem félaga í VR. Ef afstöðu kjörstjórnar verður ekki breytt, mun ég kæra þá ákvörðun áfram. Óskast upplýst hvert hægt sé að kæra slíka niðurstöðu, en í framangreindum úrskurði er ekki að finna leiðbeiningar um kæruleiðir í samræmi við ákvæði leiðbeiningar reglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Virðingarfyllst,